151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

NATO-þingið 2020.

500. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. ÍNATO (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Lágspennusvæði er einmitt það sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, talaði um að reyna að viðhalda, hversu mikilvægt væri að viðhalda því ástandi. Áhuginn hefur aukist mikið og menn hafa ákveðnar áhyggjur af því innan NATO. Það eru umsvif, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni fyrr í kvöld, á norðurströnd Rússlands, þar eru leitar- og björgunarstöðvar eða herstöðvar. Hvort það er leit og björgun eða herstöðvar hefur mikið verið rætt, þessar sex eða átta stöðvar eða hvað þær eru margar. Rússar stefna á, að ég held, að 40% þeirra landsframleiðslu komi frá gasvinnslusvæðum og olíusvæðum þarna norður frá, í Síberíu. Það er stefna þeirra eins og þeir eru að virkja hana. Rússar hafa fyrst og fremst lagt áherslu á Barentshafið og kjarnorkukafbátaflota sinn sem er staðsettur á Múrmansk-svæðinu og við Hvítahafið. Stefna NATO í stuttu útgáfunni, og við erum hluti af NATO, er þessi fælingarmáttur. Það er orðið sem hefur verið notað. Þeir eru með þetta, við erum með þetta og þá gerist ekki neitt. En eins og hv. þingmaður kemur inn á þá er náttúrlega hætta og sjálfur ólst maður upp við hana. Kvikmyndin The Day After kom út — ætli maður hafi ekki verið um tíu ára. Maður man þessa tíma og kalda stríðið. En þetta er í stuttu útgáfunni. Þetta snýst um fælingarmátt og út á það gengur stefnan í stuttu máli.