140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

267. mál
[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Auði Lilju Erlingsdóttur fyrir ræðu hennar og fyrir að vekja máls á mikilvægum þáttum sem snerta þetta mál. Ég tel að með samþykkt þeirra laga sem hér eru til umræðu hafi verið stigið mjög mikilvægt framfaraspor.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að í ljós hefur komið að sníða þarf ákveðna galla af löggjöfinni. Það frumvarp sem ég mæli fyrir lýtur einmitt að slíku. Það var alltaf gert ráð fyrir því að úrskurður héraðsdóms yrði áfrýjanlegur til æðra dómstigs og við erum að bæta úr því þar sem ekki var séð fyrir því í upphaflegri lagasmíð. Við erum í rauninni að gera í senn tæknilega breytingu á lögunum og innihaldsríka engu að síður, sem snýr að réttindum fólks.

Hv. þingmaður víkur að ákveðnum málum. Ég ætla ekki að fjalla um einstök mál en þingmaðurinn setur þetta í almennt samhengi engu að síður og það er mjög mikilvægt að ræða það. Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að þessi lög eru sett til að verja og vernda þá sem verða fyrir ofbeldi. Við megum aldrei gleyma því meginmarkmiði þessara laga. Til þess eru þau sett, en við viljum jafnframt standa vörð um mannréttindi allra sem hlut eiga að máli.

Ég tel að við þurfum að skoða lögin og ekki síður alla framkvæmd þeirra. Hv. þingmaður lagði áherslu á það. Ýmsir koma að framkvæmdinni, það er lögreglan og réttarkerfið, síðan eru það að sjálfsögðu þeir sem verða fyrir ofbeldinu. Hv. þingmaður vék að því í máli sínu að frá því að lögin voru sett hafi milli 60 og 70 einstaklingar, aðallega konur, leitað til Kvennaathvarfsins. Spurning er hvort þeim hafi verið kunnugt um að þarna var úrræði sem var hugsanlega hægt að beita, að leita til lögreglu í stað þess að flýja af heimili sínu og séð yrði til þess að sá sem beitti ofbeldinu yrði fjarlægður af heimilinu, sem er hinn eðlilega ráðstöfun og þungamiðjan í þessum lögum, hinni svokölluðu austurrísku leið.

Ég heiti því að við munum aðstoða nefndina og vinna að því einnig sjálfstætt að skoða hvort það eru hugsanlega einhverjir annmarkar á lögunum. Ekki síður er mikilvægt að stuðla að því að kerfið allt sé meðvitað um þessi mál. Það sem hv. þingmaður vísaði til voru hugsanlegir formgallar í framkvæmd og er það nokkuð sem okkur ber að skoða og öllum þeim aðilum sem koma að framkvæmd þessara laga.