152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

viðskiptaþvinganir vegna kjörræðismanns Hvíta-Rússlands.

[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna, ef einhver efast um það í hvaða liði íslensk stjórnvöld eru þegar kemur að Belarús og málefnum þar, að það liggur fyrir í öllum okkar orðum og gjörðum að við stöndum til að mynda með Sviatlönu Tsikhanouskaya sem hefur staðið í ströngu frá því að kosningar voru síðast, eftir þau vinnubrögð sem þar voru viðhöfð. Við höfum tekið þátt í öllum refsiaðgerðum Evrópusambandsins sem snúa bæði að Rússlandi og Belarús. Við höfum gagnrýnt Belarús mjög harðlega í mörg ár og gengið lengra en löndin í kringum okkur hafa gert. Það gerði ég síðast í síðustu viku fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem ég talaði fyrir Eystrasaltsríkin og Norðurlöndin og gagnrýndi stjórnvöld í Belarús mjög harðlega. Við höfum lýst yfir fullum og eindregnum stuðningi við Sviatlönu Tsikhanouskaya og íslensk stjórnvöld hafa átt með henni fjölmarga fundi og eiga mjög reglulega gott samtal við hana.

Ég vil líka að það sé algerlega ljóst að hvorki íslensk stjórnvöld né ég höldum hlífiskildi yfir neinum sem getur átt erindi á einhvers konar þvingunar- eða refsilista vegna hvers kyns háttsemi sem kann að kalla á að þau eigi þar heima. Ef staða kjörræðismannsins breytist á þann veg að hann sé settur á lista yfir þá sem sæta þvingunaraðgerðum blasir við að staða hans verður endurskoðuð. Hann hefur ekki verið á lista. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef úr utanríkisráðuneytinu, í þeim gögnum sem ég fæ þaðan, var hann ekki fjarlægður af lista en utanríkisþjónustan aflaði vissulega upplýsinga til að fá úr því skorið hvort hann yrði á lista og þá á hvaða grunni það yrði gert. Og já, ástæðan fyrir því að kallað var eftir því var að það hefði haft afleiðingar og þess vegna hefði verið rétt að vita hvort hann yrði á lista. (Forseti hringir.) Niðurstaðan var að hann var ekki á lista þá, hefur ekki verið lista síðan og ekki heldur hjá Bandaríkjamönnum eða Bretum sem eru með sinn sjálfstæða lista.