140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka utanríkisráðherra fyrir prýðilega ræðu og fyrir að leggja um leið fram þessa tillögu til þingsályktunar til fullgildingar þessa mikilvæga samnings sem var gerður í Lanzarote í október 2007. Ég kvaddi mér hljóðs og bað um andsvar strax í upphafi ræðu utanríkisráðherra, en síðan í ræðunni kom hann einmitt inn á það sem ég tel skipta miklu máli, þ.e. að ríkisstjórnin skoði málin heildstætt. Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. utanríkisráðherra sagði, að innanríkisráðherra ætlar að fylgja þessum samningi eftir. Það er eitt að skrifa undir og fullgilda samning, en við höfum því miður allt of oft staðið í þeim sporum að klára ekki málið.

Ég tel mikilvægt að við sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins fáum þessi mál frá hæstv. innanríkisráðherra sem allra fyrst. Í tengslum við það vil ég geta þess að ég held að það sé brýnt að við fáum líka heimildirnar um forvirku rannsóknarheimildirnar í því samhengi. Þó að þær dekki miklu stærra mál, m.a. skipulagða glæpastarfsemi sem er því miður að festa rætur hér á Íslandi, tengist þetta þeim hræðilega glæp sem er misnotkun á börnum.

Ég vek líka athygli hæstv. utanríkisráðherra á því sem hann kom inn á um þá sem starfa með börnum. Á sínum tíma, mig minnir að það hafi verið 2006, áttum við hér í umræðum um ákvæði sem við settum síðan inn og þingið samþykkti um æskulýðslög. Þeir sem eru í æskulýðsstarfi með börnum þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. það að hafa hreint sakarvottorð varðandi það starf sem þeir munu gegna innan æskulýðsstarfseminnar. Þá voru ekki allir sammála um það að setja svona skilyrði, m.a. ekki innan þingflokks hæstv. utanríkisráðherra.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Skildi ég ekki hæstv. ráðherra rétt, er hann ekki samþykkur því að við setjum fram þessi ákveðnu skilyrði gagnvart því fólki sem starfar (Forseti hringir.) með börnum í æskulýðsstarfi sem og íþróttastarfi?