143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt sem kom fram í umræðunni, að sú umræða sem fer fram á næstu dögum og mánuðum verði til að opna umræðuna en ekki til þess að þrengja hana, ekki til þess að við segjum: Við ætlum að gera þetta og hitt eingöngu, af því að það leysir málin. Hæstv. ráðherra sagði að nemendur þyrftu að fá betra tækifæri til að nýta tíma sinn. Um það erum við algjörlega sammála. Felst það í því að segja þeim óháð því hver þau eru og hvaðan þau koma að það henti þeim öllum að ljúka námi á þremur árum? Nákvæmlega, ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið og staðfestir að það er ekki þannig. Við eigum að horfa til þess að það er ekki bundið í lögum í dag á hvaða tíma menn eigi að ljúka námi, það eru ólíkar aðstæður, ólíkir hæfileikar, fullt af öðrum slíkum hlutum sem geta ráðið því hver námsframvindan er.

Að sjálfsögðu eigum við að reyna að skila eins vönduðum skóla og hægt er og þannig leiðbeina aðilum í gegnum kerfið svo menn geti þá valið hversu miklu þeir bæta við sig eða ekki. Þetta er ekki spurning um afkastahvetjandi framleiðslukerfi, þetta er spurning um líf og menntun ungs fólks.

Við skulum átta okkur á því, eins og ég sagði, að framhaldsskólinn er nánast orðinn hluti af grunnnáminu í landinu og við þurfum að auka menntastigið á þeim aldri. Við þurfum að átta okkur á því að í atvinnulífinu á Íslandi eru færri með menntun eftir grunnskóla en annars staðar í Norður-Evrópu að minnsta kosti. Þar er töluvert mikið og stórt verkefni að vinna. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra og vona að umræðan leiði til þess að hún verði opnari, hún verði almenn, það verði almenn þátttaka í henni vegna þess að þetta er eitt af þeim kerfum og þeim stofnunum í samfélaginu sem skipta okkur gríðarlegu máli. Við verðum að þora að ræða aðbúnaðinn í skólanum, kjörin, af hverju uppeldisstéttir og heilbrigðis- og umönnunarstéttir eru alltaf skör lægri en aðrar stéttir í þessu samfélagi. Þorum við að taka á því og forgangsraða (Forseti hringir.) í samfélaginu? Um það snýst þessi umræða og ég ætla að vona að þetta upphaf hér leiði til þess að hún verði opnari og lausnamiðaðri.