144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Datt einhverjum í hug að löggjafinn hefði það að markmiði þegar hann ákvað að þessi mál skyldu á endanum koma til þingsins að þingið hefði ekkert með neinar breytingar að gera? Í lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir því að ráðherrar geti gert breytingar á niðurstöðu verkefnisstjórnar. Það gerðu ráðherrar í síðustu ríkisstjórn. Þeir tóku málið og breyttu (Gripið fram í.) í samræmi við lögin (Gripið fram í.) og breyttu niðurstöðu verkefnisstjórnar á þeim faglegu forsendum sem lýst hefur verið svo ágætlega í bók Össurar Skarphéðinssonar, í pólitískum hrossakaupum. (Gripið fram í.) Dettur þá einhverjum það í hug, virðulegi forseti, að þingið hafi þá bara ekkert með það að gera að mega gera breytingartillögur eins og ráðherrar? (Gripið fram í.) Ég meina, það stendur auðvitað skrifað í lögin og ég óska eftir því í þeim miklu ásökunum sem hér eru bornar á hendur okkur, meiri hluta þingmanna í atvinnuveganefnd, að farið verði yfir það efnislega hvað verið er að brjóta í löggjöf um rammaáætlun. Hvaða lög erum við að brjóta? Það var kallað hér og hrópað í morgun að við værum að brjóta lög, brjóta (Forseti hringir.) bæði þingskapalög og lög um rammaáætlun. Það er búið að draga þetta til baka núna. Þetta er upphlaup sem var algjör óþarfi. Hér var verið að senda mál (Forseti hringir.) til umsagnar. [Kliður í þingsal.] Til umsagnar var verið að senda málið. Hér er talað um að það hafi verið afgreitt úr nefnd. (Forseti hringir.) Ég vitna til orða formanns Sjálfstæðisflokksins áðan og bið menn að skoða aðeins hvernig þeir tala hérna — gegn betri vitund.