151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé framfaramál og réttlætismál sem hér var mælt fyrir og ég þakka hv. flutningsmanni fyrir sína ágætu framsögu. Maður verður dálítið var við það í umræðum um þetta mál að sumir vilja viðra áhyggjur af því að aðrir fái að njóta sömu réttinda og þeir sjálfir njóta. Það er algengt viðkvæði í umræðum um réttindamál og um réttlætismál að réttindi eigi að vera frátekin fyrir tiltekna hópa sem eigi þau frekar skilið en aðrir. En í þessu tilviki tel ég einsýnt að 16 ára fólk eigi að njóta þeirra réttinda að fá að ganga til kjörborðs einfaldlega af þeirri ástæðu að þau eru orðin skattborgarar. Þau eru orðin skattborgarar í þessu landi, við tökum af þeim hluta tekna þeirra og verjum þeim hluta tekna þeirra til reksturs samfélagsins og þau eiga að sjálfsögðu að hafa sitt að segja um það hvernig þessu er varið. Ég tek reyndar fram að ég treysti ekkert endilega ungu fólki til að kjósa vel og skynsamlega frekar en öllum öðrum. Þau kjósa bara með ýmsum hætti eins og allir aðrir.

Mig langar til að nota þetta tækifæri og spyrja hv. þingmann: Maður heyrir stundum talað um að 16 ára börn eigi rétt á því að vera í friði fyrir pólitíkinni og mig langar svolítið að fá viðbrögð hv. þingmanns við því sjónarmiði. Stenst það að það séu réttindi að kjósa ekki?