151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:26]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði um rétt fólks til að vera í friði fyrir ágangi stjórnmálanna. Ég held að það sé eitthvað sem breytist í sjálfu sér ekki þó að við hnikum kosningaaldrinum sjálfum til. Staðreyndin er sú að áreiti stjórnmálaflokka, ef við köllum sem svo, fer ekki fram hjá börnum í dag frekar en öðrum í samfélaginu og er jafnvel stundum beint til þeirra. Það þarf ekki endilega að vera neikvætt. Viljum við ekki að fólk hafi færi á að mynda sér skoðun á helstu málefnum samfélagsins hverju sinni? Það er bara hluti af því að vera þátttakandi í samfélagi að vilja stýra því hvernig samfélagið þróast. Það er síðan réttur okkar að nýta ekki það tækifæri. Ég held hins vegar að umræðan um einhvern mikinn eðlismun á því að hafa kosningaaldurinn 16 eða 18 ár byggist ekki á neinu raunverulegu. Ég held að það sé vandi sem við munum ekki þurfa að kljást við. Þvert á móti verður hægt að bjóða upp á efnismeiri og betri fræðslu til yngri kjósenda, t.d. þeirra sem eru á framhaldsskólastigi, sem oft hefur verið kallað eftir, en skólarnir jafnvel verið viðkvæmir fyrir því að hleypa slíkri umræðu inn til sín af einhverjum ástæðum.