151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þóttu það líka góð rök hjá hv. þingmanni í framsögu hans áðan þegar hann nefndi loftslagsmálin. Það er náttúrlega stærsta mál nútímans og varðar þennan hóp sérstaklega en ekki okkur sem ekki munum lifa þær ógnir sem bíða væntanlega.

Mig langaði í seinna andsvari mínu að tæpa á því sem hv. þingmaður lauk máli sínu á að tala um og biðja hann um að velta aðeins betur fyrir sér þessu atriði með menntunina. Skólakerfið á að veita okkur undirbúning undir það að vera nýtir og góðir þegnar, nýtir og góðir borgarar, í samfélaginu og hjálpa okkur við að þroska þá hæfileika að hugsa um þjóðmál og tjá okkur um þau. Þá á ég ekki við einhverja ákveðna innrætingu út frá tiltekinni hugmyndafræði heldur að kynna sér ólíka hugmyndafræði og taka afstöðu til þeirrar hugmyndafræði út frá upplagi sínu og öðrum hugsunum um hvaðeina. Getur verið að það vanti dálítið mikið upp á að þessu skilyrði sé nógsamlega fullnægt í skólakerfinu okkar, að það vanti dálítið upp á það að rökræður séu stundaðar innan skólanna, að nemendur séu þjálfaðir í því að tala fyrir málum og gegn málum og þeir þjálfist í því að taka afstöðu til stjórnmála og fái áhuga á stjórnmálum (Forseti hringir.) og að einhver slík menntun gæti verið einhvers konar forsenda fyrir því að farsællega takist til?