141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þá tillögu sem hér hefur verið rædd, það var mikilvægt að hún kæmi fram því að það er mat okkar að þetta væri umræðugrundvöllur eða tillaga sem flestir gætu sætt sig við. Því var hún lögð fram í góðri trú.

Mig langar að nefna annað mál sem ég hef áhyggjur af og það eru komandi mánuðir á Íslandi. Við erum að eyða miklum kröftum og fjármunum í umsóknina sem hér var rædd. Ég held að það sé ráð að leggja hana til hliðar og einbeita okkur að því sem er fram undan heima á Íslandi. Það eru lausir kjarasamningar eða það eru í það minnsta líkur á að þeim verði sagt upp. Það getur kallað yfir okkur mikil vandræði á vinnumarkaði. Það vantar störf á Íslandi. Við sjáum stöðuna hjá hjúkrunarfræðingum sem hafa sagt upp störfum og ætla að flytja af landi brott. Verðbólga hrjáir heimilin og lánin hækka. Aldrei hafa fleiri þurft á aðstoð að halda frá hjálparstofnunum. Það er ósætti í samfélaginu og svo mætti áfram telja.

Ég held að það sé mikilvægt að hér komi fram frá Alþingi, fyrst það kemur ekki frá framkvæmdarvaldinu, ekki frá ríkisstjórninni, einhver framtíðarsýn sem fólk getur byggt á og horft bjartari augum fram í tímann. Það gerum við ekki nema breyta því fjárlagafrumvarpi sem við erum að fá inn í þingið. Það er alveg ljóst að það fjárlagafrumvarp sem hér á að fara í 3. umr. mun ekki gera annað en að auka á þau vandræði sem ég taldi upp áðan, auka vanda heimilanna, vanda fyrirtækjanna og verða til þess að draga úr fjölgun starfa. Þar af leiðandi verðum við þingmenn að taka okkur á og breyta fjárlagafrumvarpinu þannig að það verði hvetjandi og jákvætt fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.

Ég hef líka áhyggjur af því að Alþýðusamband Íslands, stærstu samtök á landinu, er að fara að höfða mál á hendur ríkinu vegna brota á samningum, brota á jafnræðisreglunni. Það er áhyggjuefni þegar hlutirnir eru komnir í þann farveg (Forseti hringir.) að slík samtök geta ekki sótt rétt sinn eða talað við ríkisvaldið nema í gegnum dómstólana.