144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það væri áhugavert að vita hvort hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir séu þessu sammála. Þau voru ekki hér til svara í morgun. Hins vegar lýstu tveir hv. þingmenn, Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson, sig þessu sammála og annar fullyrti að einhugur væri í meiri hluta nefndarinnar um meðferð þessa máls. Mér þykir afar ólíklegt að svo sé. Ég trúi því ekki að fólk sé tilbúið til þess, eins og hér var nefnt meðal annars, að virkja Urriðafoss.

Ég kallaði eftir því hér í morgun hvort þetta hefði verið tekið fyrir formlega í ríkisstjórn en hæstv. ráðherra þessara mála, Sigurður Ingi Jóhannsson, var fljótur að sverja þetta af sér í haust þegar þetta kom fram. Það væri vert að vita hvort hann sé sammála því núna að þó að þessum kostum sé fækkað um helming þá dugi það til, eins og 1% í virðisaukaskattinum dugði Framsóknarflokknum. Er það virkilega svo að menn meta þetta faglega ferli ekki meira en svo að það að fækka kostum um helming dugi til og haldi að það skapi frið á þessum vettvangi.