144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ef það er hægt að ákveða að setja fjóra virkjunarkosti í nýtingarflokk undir liðnum Önnur mál á nefndarfundi á grundvelli vissulega óumdeilds stjórnarskrárákvæðis um rétt þingmanna til að leggja fram tillögur eru lögin um nýtingu og vernd marklaus. Það eru lög um það hvernig á að meðhöndla þingsályktunartillögur, þau fjalla um það hvernig á að meðhöndla breytingar á til dæmis tillögum verkefnisstjórnar. Það voru gerðar breytingar á tillögum verkefnisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili en það var gert algjörlega í samræmi við lögin. (Fjmrh.: Út af ESB.) Ráðherra gerði tillögu að breytingu, hún fór í 12 vikna umsagnarferli og kom svo inn í þingið. Það segja lögin. Hér ekki verið að fara eftir lögunum og það er ótrúlegt (Forseti hringir.) að verða vitni að því virðingarleysi gagnvart lögunum sem við sjáum núna. Þetta vekur auðvitað spurningar: (Forseti hringir.) Fyrir hverju eigum við að bera virðingu, eigum við að bera virðingu fyrir bjöllunni eða hvert eru þingstörfin komin?