144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í hvaða húsfélagi sem er, í hvaða áhugamannafélagi sem er, í hvaða grunnskóla sem er þá afgreiða menn ekki stór málefni út af fundi án þess að þau séu á dagskrá. En forseti Alþingis treystir sér ekki til þess að hafa slíka reglu í sínu húsi.

Það er algjörlega ótrúlegt að hægt sé að taka ákvörðun um fjóra stóra, umdeilda virkjunarkosti og afgreiða út úr nefnd án þess að nefndarmenn fái boð um það með dagskrá. Það er svo fullkomlega fyrir neðan allar hellur að það er ótrúlegt að þingmenn láti bjóða sér að hér sé sett fordæmi um að hvað sem er megi taka á dagskrá, hvenær sem er, án þess að það hafi nokkurn tíma verið sett á dagskrá. Það er héðan í frá ástæðulaust að gefa út dagskrá fyrir nefndarfundi vegna þess að það er ekki til að taka mark á, úr því að hvað sem er má taka á dagskrá (Forseti hringir.) án þess að það hafi verið þar fyrir. En við vitum það hins vegar eftir þessa umræðu (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn telur sig vera óbundinn (Forseti hringir.) af almennum lögum sem hann tekur þátt í að setja(Forseti hringir.) vegna þess að þeir eiga bara við stjórnarskrána og samvisku sína (Forseti hringir.) og þurfa ekki að fara að þeim lögum sem (Forseti hringir.) þeir sjálfir hafa greitt atkvæði.