151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni var megintilgangur þessa frumvarps um málefni innflytjenda, sem er lagt fram af hæstv. félagsmálaráðherra í annað sinn, að samræma móttöku flóttafólks. Þetta snýr m.a. að Fjölmenningarsetri og ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við starfsemi Fjölmenningarseturs, það er bara ágætisstofnun sem gerir ágæta hluti. En í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …“

Í því felst grundvallarbreyting og ég er þeirrar skoðunar að hér þurfi að staldra aðeins við og skoða hvað þetta þýðir í raun og veru, þ.e. að það á ekki að gera greinarmun á kvótaflóttamönnum — sem við veljum og tökum vel á móti og oft kemur það fólk frá stríðshrjáðum löndum og miklum erfiðleikum og við höfum sinnt því fólki vel og eigum að gera það áfram og ég styð það heils hugar — en hér er verið að setja þá sem koma hingað til lands á eigin vegum og fá hér dvalarleyfi undir sama hatt þegar kemur að þjónustunni.

Þetta er ég fyrst og fremst að gagnrýna vegna þess að það felur í sér kostnaðarauka, herra forseti, sem ráðherra hefur ekki gert grein fyrir. Það er, verð ég að segja, mikill galli á þessu frumvarpi og ámælisvert. Við verðum að fá að vita hver kostnaðurinn er. Það er einfaldlega þannig. Ég hef, sitjandi í fjárlaganefnd, haft miklar áhyggjur af skuldastöðu ríkissjóðs og tel eðlilegt að þegar svona breyting er gerð liggi nákvæmlega fyrir hvað þetta kemur til með að kosta. Það er ekki að finna í frumvarpinu og hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því og farið undan í flæmingi og vísar bara til Útlendingastofnunar, að við eigum að gera þarna greinarmun á málaflokki hans og svo Útlendingastofnun. En hann verður að gera grein fyrir því hvað þetta frumvarp kostar. Það kostar engar 24 milljónir eins og kemur fram í greinargerðinni í kafla 6 þar sem fjallað er um mat á áhrifum.

Skoðum aðeins fjöldann sem við höfum tekið á móti. Við höfum tekið á móti 85 kvótaflóttamönnum. Reyndar var samþykkt að hækka þann fjölda upp í 100. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það hefur tekist til, hvort sú tala hafi náðst á síðasta ári, en alla vega höfum við gert það ágætlega. Síðan höfum við tekið á móti 631 hælisleitenda sem fékk dvalarleyfi. Þessi málaflokkur kostaði 3,5 milljarða kr., þ.e. hælisleitendaþátturinn, ekki kvótaflóttamannaþátturinn, á síðasta ári. Svo var óskað eftir aukafjárveitingu einhverra hluta vegna. Þrátt fyrir að umsóknum hafi fækkað á síðasta ári var engu að síður óskað eftir aukafjárveitingu upp á 400 milljónir og var hún samþykkt í fjárlagaafgreiðslunni fyrir jól þannig að við erum að tala um 4,1 milljarð undir málefni hælisleitenda og 631 einstakling. Fyrir þennan pening hefðum við getað aðstoðað 7.572 einstaklinga í flóttamannabúðum, t.d. í Miðausturlöndum, Jórdaníu, Líbanon, Gasa, sem dæmi.

Ég er bara þar, herra forseti, ég vil að við nýtum þessa fjármuni sem best og reynum að aðstoða fólk t.d. á heimaslóðum, í flóttamannabúðum og gera það með þeim hætti að færa þá fjármuni til stofnana t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna sem reka flóttamannabúðir. Ég hef komið í flóttamannabúðir, bæði í Gasa og Jórdaníu, og það er ekki þannig að það séu tjaldbúðir eða þess háttar. Þetta eru íbúðir, íbúðarhúsnæði, og rekið er heilbrigðiskerfi fyrir flóttamennina, það er rekið menntakerfi, það er rekið félagslegt kerfi. Þetta kostar allt peninga og þjóðir heims eru að styrkja það. Ég persónulega hefði viljað sjá að við myndum draga úr fjölda hælisleitenda sem koma hingað og setja peninginn í þessar stofnanir til að geta hjálpað sem flestum. Það er nú einu sinni þannig með þetta hælisleitendakerfi okkar að verið er að misnota það. Það vita allir. Það vita allir að verið er að misnota það. Ég er ekki að segja að allir séu að misnota það, síður en svo. Það er náttúrlega hópur þarna innan um sem svo sannarlega þarf aðstoð en fólk er að misnota kerfið. Það bíður í marga mánuði á kostnað ríkisins og er síðan vísað frá eftir einhverja marga mánuði, jafnvel heilt ár, og í sumum tilfellum þarf að veita því dvalarleyfi vegna þess að ferlið hefur tekið svo langan tíma. Þetta er það sem ég vildi koma aðeins að varðandi þá upphæð sem við erum að setja í þetta kerfi. Til dæmis eru 500.000 flóttamenn í Líbanon, það eru 2,2 milljónir í Jórdaníu, 1,4 milljónir í Gasa. Þetta er allt saman gríðarlegur fjöldi fólks sem þarf að aðstoða og við eigum að aðstoða en við gætum gert það með mun markvissari hætti með því að senda peninga til stofnana Sameinuðu þjóðanna sem reka þetta kerfi.

Mér finnst sérkennilegt, ég verð að segja það, herra forseti, að yfirfæra réttindi kvótaflóttafólks yfir á hælisleitendur. Þetta er tvennt ólíkt. Við erum að tala um fólk sem við samþykkjum að taka við og sjá um og síðan fólk sem kemur hingað á eigin vegum og ekki er alltaf ljóst hvort það uppfylli í raun og veru alþjóðleg skilyrði þess að vera flóttamenn. Það er margvísleg þjónusta í boði fyrir kvótaflóttamenn sem hælisleitendur fá ekki og ef við erum að setja þá undir sama hatt kostar það meiri pening. Þá þarf hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því og það þarf þá að fara í fjármálaáætlun og annað slíkt. Hins vegar er þetta náttúrlega þannig að með auknum fjölda koma upphæðirnar til með að stækka og kerfið verður dýrara. Við erum að senda ákveðin skilaboð út í heim um það að þessi þjónusta sé í boði og þá hefur það í för með sér að umsóknum fjölgar. Það er bara þannig.

Ég er, eins og ég sagði áðan, algjörlega á þeirri skoðun að við eigum að aðstoða og hjálpa vel kvótaflóttafólki. En hér finnst mér gengið of langt og þetta er óskilgreint, sérstaklega hvað varðar kostnaðinn. Við erum þekkt fyrir að veita mjög góða þjónustu í þessum málaflokki. Það þýðir að fleiri munu sækja hingað. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið út að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd sé orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Þetta hefur verið rakið í þessari umræðu. Það þýðir náttúrlega að umsóknunum mun fjölga, það er alveg ljóst. Við þurfum hins vegar að sníða okkur stakk eftir vexti og gera okkur grein fyrir því að þessu fylgir aukinn kostnaður sem þarf þá að liggja fyrir. En það gerir það ekki í þessu máli, hvergi er tekið fram hvað þetta þýðir í raun í kostnaði. Sitjandi í fjárlaganefnd finnst mér það alveg ótækt.

Síðan verð ég að segja að umræðan um þennan málaflokk hefur alltaf tilhneigingu til að verða óvægin og þá helst þegar rætt er um tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd, sem er töluvert um. Nú er það t.d. þannig í Noregi og Danmörku, af því það hefur verið nefnt í þessu samhengi, ég held að það hafi verið hæstv. ráðherra sem gat um það áðan í andsvari að verið væri að veita sambærilega þjónustu í Noregi. Sveitarfélögin væru að veita fólki þessa þjónustu. Þar af leiðandi væri stefnan sú sama sem yrði innleidd hér með þessu frumvarpi eins og er í Noregi. En í Noregi og Danmörku, Noregi sérstaklega, er um leið verið að sporna við því að verið sé að sækja í ríkari mæli um hæli. Norðmenn auglýsa á samfélagsmiðlunum hverjir það eru sem geta komið til landsins og fengið hæli. Það eru t.d. auglýsingar sem eru orðaðar á þann veg að ef þú ert að sækja um vinnu, ef þú ert að leita að betri lífskjörum sé það ekki lögmæt ástæða til að sækja um hæli í Noregi. Þetta auglýsa þeir á samfélagsmiðlum og víðar til að koma í veg fyrir að fólk sé að sækja um með tilhæfulausum hætti. Gerum við eitthvað svoleiðis hér? Nei, við gerum ekkert af þessu tagi, ekki neitt. Ég spurði dómsmálaráðuneytið hvers vegna við færum ekki sömu leið og Noregur þegar dómsmálaráðuneytið kom fyrir fjárlaganefnd. Hvers vegna auglýsum við ekki að fólk geti ekki sótt um hæli hér þegar það er að leita betri lífskjörum? Ég ber virðingu fyrir því, herra forseti, að fólk leiti sér að betri lífskjörum en það er bara ekki lögmæt ástæða til að sækja um hæli. En það er samt töluverður fjöldi sem gerir það og því fylgir heilmikill kostnaður. Þann kostnað hefði ég viljað nota til þess að hjálpa flóttamönnum sem þurfa virkilega á því að halda, t.d. í flóttamannabúðum. Á sama tíma er verið að tefja málin í marga mánuði, það er lögfræðikostnaður og alls konar kostnaður vegna þess að svo kemur á daginn að viðkomandi hafði ekki rétt á að sækja um hæli. Ég hefði viljað sjá þennan pening notaðan t.d. í Miðausturlöndum, til að mynda í flóttamannabúðum í Gasa, en ekki í einhvern lögfræðikostnað hér sem dæmi.

Það er margt sem þarf að laga og það þarf að koma því skilmerkilega á framfæri hverjir geta sótt um og hvað séu lögmætar ástæður til að sækja um. En það erum við hins vegar ekki að gera. Við erum öll sammála um að gæta að mannréttindum og við erum öll sammála um að við eigum að aðstoða þá sem þurfa það á erfiðum tímum. En ég geri hins vegar líka ráð fyrir því að við séum öll sammála um að það sé ekki ásættanlegt að sumir nýti sér þetta kerfi með tilhæfulausum umsóknum með tilheyrandi töfum fyrir þá sem raunverulega þurfa aðstoðina. Við gætum nýtt þá fjármuni mun betur þar sem fjöldi flóttamanna er, eins og í þeim flóttamannabúðum sem við höfum nefnt hér.

Rétt er að minnast á að haft var eftir núverandi fjármálaráðherra, þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, fyrir um þremur árum þar sem hann var að ræða um tilhæfulausar umsóknir og reynslu stjórnvalda í öðrum löndum, að mikilvægt væri að beita samræmdri túlkun reglnanna. Ég tek heils hugar undir þetta. Það erum við ekki að gera. Ég segi fyrir mitt leyti að það mætti halda að við litum á þetta sem eitthvert séríslenskt vandamál, en það er ekki þannig. Það er verið að misnota þetta kerfi víðs vegar um heim. Það eru fjöldamörg dæmi þess frá öðrum löndum og þá sjáum við til að mynda skilaboðin frá norskum stjórnvöldum, vegna þess að þar er verið að misnota kerfið. Þau koma því skilmerkilega á framfæri á öllum helstu netmiðlum að þeir sem þangað koma í leit að alþjóðlegri vernd fái ekki hæli undir ákveðnum kringumstæðum. Nefnd hafa verið hér önnur ríki eins og Grikkland og eru aðstæður vissulega ekki góðar þar. Það eru u.þ.b. 50.000 flóttamenn í Grikklandi. Ég held að það hafi verið 120.000 umsóknir um alþjóðlega vernd á síðasta ári í Grikklandi. Grikkland er Evrópusambandsland og ætti Evrópusambandið þá náttúrlega að aðstoða Grikki við að taka sómasamlega á móti því fólki. Hér erum við að veita fólki alþjóðlega vernd sem hefur fengið hæli í flóttamannabúðum í Grikklandi en þær eru ekki taldar boðlegar. Eigum við þá ekki að koma þessum skilaboðum á framfæri til stjórnvalda og til Evrópusambandsins, sem sumir hverjir renna mjög hýru auga til, sem sér ekki sóma sinn í því að styrkja Grikki til að skapa þessu fólki sómasamlegar aðstæður?

Það er margt í þessu sem þarf að halda til haga. Ég held því miður, herra forseti, að menn hafi ekki hugsað þetta frumvarp til enda og verði að gera grein fyrir þeim kostnaði sem um ræðir. Þetta þýðir að skilaboðin um góða þjónustu hér munu berast og það þýðir aukinn fjölda umsókna. Það er alveg klárt. Það þýðir þá meiri kostnað og honum þarf að mæta (Forseti hringir.) með einhverjum hætti og það er rétt að stjórnvöld geri grein fyrir því hvernig þau ætla að mæta þeim kostnaði.