144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

námskostnaður.

374. mál
[17:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra fór í upphafi ræðu sinnar yfir það að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, hefði misskilið eitthvað eða skildi ekki það sem hæstv. ráðherra væri að gera og héldi því þar með ranglega fram að það væri stefna þessarar ríkisstjórnar að reyna að loka framhaldsskólum fyrir 25 ára og eldri. Svo fór ráðherra yfir það í lokin að það væri réttast að sá hópur væri annars staðar og fór yfir það í löngu máli. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er ákveðin forgangsröðun í gangi og svo þegar skorið er niður um tæplega þúsund nemendaígildi í framhaldsskólunum og þannig þrengt að því hversu margir mega fara í framhaldsskóla þá hefur það þau áhrif að þeir sem elstir eru og aftast í forgangsröðinni komast síður að. Það hefur óhjákvæmilega þau áhrif.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri stefna sín að þeir sem væru eldri mundu læra annars staðar en (Forseti hringir.) í framhaldsskólanum.

Virðulegi forseti. Hvað hefur hv. þm. Árni Páll Árnason misskilið? Ekki neitt. Þetta er stefna hæstv. ráðherra og kerfið sem hann (Forseti hringir.) beinir eldri nemendunum inn í kostar miklu, miklu meira en framhaldsskólinn.