144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

fækkun nemendaígilda.

375. mál
[17:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, sem kom fram í fyrirspurn hv. þingmanns, sem ég þakka hér með fyrir, að við afgreiðslu fjárlaga var verulega bætt við framlög til Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík vegna þess vanda sem hv. þingmaður lýsti sem sneri að því að það voru fleiri nemendur, reyndar umtalsvert fleiri, í þessum skólum en greitt var fyrir. Háskóli Íslands hafði bent á þetta vandamál og eins Háskólinn í Reykjavík að það yrði að grípa inn í þetta og það var gert með sérstakri aðgerð og sérstakri fjárveitingu sem miðaði nákvæmlega að þessu. Vitanlega komu upp umræður um stöðu annarra skóla hvað þetta varðaði og jafnræði og vissulega er þetta alltaf vandmeðfarið, en augljóst mátti telja að ekki væri hægt að búa áfram við það ófremdarástand sem verið hefur undanfarin ár að í ákveðnum skólum séu fleiri nemendur en greitt er fyrir.

Hv. þingmaður spurði hvort það væri mat mitt að þessir skólar gætu vel við unað eða rekið sig á þessum forsendum. Svarið er, eins og oft þegar svona stórar spurningar koma fram, bæði já og nei. Þessi aðgerð auðveldar þeim reksturinn. Hún gerir að verkum að auðveldara er fyrir þessa skóla að sinna hlutverki sínu. Íslenskir háskólar og háskólakerfið er undirfjármagnað, sú er staðan. Reyndar þegar við skoðum í alþjóðlegu samhengi og berum til dæmis saman við OECD-löndin þá sjáum við að framlag ríkisins, þegar horft er á það sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eða sem hlutfall af ríkisútgjöldum, þá er það á þokkalegu pari við meðaltal OECD-ríkjanna. Það sem vantar þar upp á eru framlög einkaaðila, fyrirtækja og annarra inn í háskólakerfið sem eru hærri í flestum öðrum OECD-löndum en hjá okkur. Við lendum því neðarlega þegar þetta er lagt saman. Aftur á móti, þegar borið er saman við Norðurlöndin, þá eigum við Íslendingar töluvert langt eftir, sérstaklega hvað varðar ríkisframlagið. Það þyrfti að vera hærra.

Þetta liggur fyrir og á síðasta ári gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu sem sneri að rannsóknastarfi í landinu þar sem verulegum fjárhæðum var bætt við framlög til Rannsóknasjóðsins og Tækniþróunarsjóðsins, verulegum fjárhæðum á þessum fjárlögum, til að styrkja þá starfsemi sem aftur styrkir háskólastarfsemina. Um leið er það líka yfirlýsing um að haldið verði áfram að auka þessi fjárframlög hér á næstunni til að Ísland nái þeim meðaltölum, í alþjóðlegu samhengi og samanburði, sem við teljum nauðsynlegt að háskólakerfið okkar nái hvað varðar fjármögnun.

Um leið koma líka upp í hugann margar aðrar spurningar um háskólakerfið okkar. Það er líka staðreynd, virðulegi forseti, sem rétt er að hafa í huga að meðalaldur þeirra sem ljúka BA- eða BS-prófi á Íslandi er einn sá hæsti ef ekki sá hæsti sem þekkist innan OECD. Meðalaldurinn er rétt rúm 30 ár. Meðalaldur nýskráninga inn í skólann, þ.e. þeirra sem skrá sig í fyrsta sinn í háskólanám, er 26 ár á Íslandi, sem er nálægt þeirri tölu sem er fyrir útskrift úr BA- eða BS-prófi að meðaltali innan OECD. Þetta hlýtur að vera okkur til umhugsunar vegna þess að eftir því sem fólk menntar sig fyrr á æviferlinum því meiri verður efnahagslegur afrakstur þeirrar menntunar. Það er ýmislegt sem bendir til þess, þegar við horfum til dæmis til framhaldsskólastigsins okkar, að það sé eitthvað að hjá okkur þegar fyrir liggur að í íslenska framhaldsskólanum er námsframvinda slökust af öllum OECD-ríkjunum og eitthvert almesta brottfallið. Þannig að það er augljóst, hvort sem það er framhaldsskólinn eða háskólinn, að það er eitthvað í kerfinu okkar sem gerir að verkum að þessi staða er uppi.

Rétt eins og við vorum að ræða áðan, um stöðu þeirra sem eldri eru varðandi framhaldsskólann, þá er rétt að hafa í huga, þegar kemur að ævitekjum fólks, að hægt er að fara, ef verið er að leita að rétti til að koma inn í háskólann, hraðar í gegnum þá leið sem við höfum verið að móta hér á undanförnum árum, sem er ekki í gegnum framhaldsskólakerfið heldur háskólagáttirnar o.s.frv., sem gerir að verkum að það tekjutap sem fólk verður fyrir með því að vera í námi en ekki í vinnu verður minna. Það getur skipt verulega miklu máli fyrir fólk að geta farið ódýrari og hraðari leið sem er sérhönnuð fyrir viðkomandi einstaklinga.

Ástæðan fyrir að ég nefni þetta í samhengi við háskólana er akkúrat þetta að við þurfum að huga að því og hugsa vel um það hvernig við tryggjum að okkar háskólakerfi skili að minnsta kosti jafn góðum og helst betri árangri en gerist í löndunum í kringum okkur. Við þurfum á því að halda, þessi þjóð, og það hefur ekki gengið alveg nógu vel hjá okkur. Það er alveg augljóst. Til þess benda ýmsar tölur. Það er ekki við háskólann að sakast um það. Það er annars vegar hvernig við (Forseti hringir.) fjármögnum kerfið og hvernig við höfum byggt sjálft kerfið upp.