137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi aldrei tekið mér í munn orðið „skjól“ sérstaklega en það kann að vera að það eigi við. Ég talaði um greiðslufrest. Það er auðvitað ástæða til þess að halda því til haga og ég held að það skipti okkur auðvitað máli að við getum í sjö ár einbeitt okkur að þeim fjölmörgu stóru verkefnum sem hér bíða okkar eftir hrunið án þess að það þurfi að koma til greiðslna af þessum skuldbindingum.

Auðvitað eru þetta gríðarlegar skuldbindingar og auðvitað eru vextirnir af þeim gríðarlegir og auðvitað er það þess vegna sem öll þessi umfjöllun hefur verið um málið og verið að reyna að setja því skorður, því mikla tjóni sem varð til á síðasta ári. Það varð ekki til hjá samninganefndinni eða í meðförum málsins heldur hinn 6. október sl. Það er auðvitað ábyrgð okkar, mín og hv. þingmanns, að ráða fram úr því hvernig það sé hægt að gera og verður auðvitað ekki gert vaxtalaust.