144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ástandið í Nígeríu .

[15:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég vil segja svo það sé alveg skýrt að ég var ekki að bera saman eða segja að það væri sambærilegt ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og ástandið í Nígeríu, en hins vegar tala ég um þessi dæmi í sömu andrá vegna þess að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur verið skelfilegt oft og tíðum, en Íslendingar hafa náð að beita sér varðandi það ástand með málflutningi sínum og ýmsum öðrum aðgerðum í gegnum tíðina. Eins hefur ástandið verið mjög vont í Úkraínu á algjörlega ósambærilegan hátt og er í Nígeríu en þar hafa Íslendingar líka, og hæstv. utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir framgöngu sína í þeim málum, beitt sér með málflutningi. Ég fagna því að mannréttindabrotin í Nígeríu séu á radar utanríkisþjónustunnar og ríkisstjórnarinnar og hvet hæstv. ráðherra til að beita sér meira í þessum málum gegn þeim viðurstyggilegu mannréttindabrotum (Forseti hringir.) sem þarna eiga sér stað.