144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Sigurður Örn Ágústsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið lærdómsríkt og gaman að fá tækifæri til að starfa í þessu sögufræga húsi í þessum litla sal sem er samt svo stór fyrir okkur Íslendinga. Starf alþingismanns er mjög mikilvægt og hafandi fylgst með úr fjarska sem áhugamaður um stjórnmál um langa hríð hefur verið ánægjulegt að fá tækifæri til að máta sig við þetta starf. Þetta mikilvæga starf sem mörgum er mjög tamt að tala niður og lítilsvirða langar mig að gera að umfjöllunarefni hér.

Ímyndum okkur eftirfarandi atvinnuauglýsingu og veltum því fyrir okkur hvort okkar besta og hæfasta fólk sé líklegt til að sækja um:

Auglýst er eftir starfsmanni í mikilvægt starf sem felur í sér að setja lög, hafa áhrif á samfélagið í lengd og bráð, tækifæri til að hafa áhrif á kjör fólks, umhverfi viðskipta, menntunar og heilbrigðismála svo eitthvað sé nefnt. Taka þarf stórar og stefnumarkandi ákvarðanir sem ekki eru allar líklegar til stundarvinsælda. Vinnutími er óreglulegur, ekki er greitt sérstaklega fyrir kvöld-, nætur- eða helgarvinnu, líkur eru á að stór hluti fólks í landinu muni gagnrýna þig linnulítið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, oftast ómálefnalega, fyrir það eitt að vera á öndverðri pólitískri skoðun. Frammistaða verður ekki mæld né gagnsemi með hlutlægum mælikvörðum. Engin raunveruleg endurgjöf vegna starfsins fer fram innan vinnustaðarins. Að fjórum árum liðnum munu kjósendur þíns flokks stjórna því hvort þú verður endurráðinn, fyrst í prófkjöri og svo í kosningum, án þess að í raun hafi farið fram nokkurt hlutlægt mat á árangri í starfi. Starfsvettvangurinn nýtur trausts um 10% þjóðarinnar. Mötuneytið er mjög gott. (Gripið fram í.)

Fyrir þetta starf verða greidd föst laun 651.446 kr. Til samanburðar eru regluleg meðallaun á Íslandi 436 þús. kr. Í samanburði við þau lönd sem við berum okkur hvað oftast saman við eru grunnlaun alþingismanna á Íslandi lág og ekki í réttu hlutfalli við mikilvægi starfsins. Grunnlaun alþingismanna í samanburðarlöndum eru að meðaltali tvisvar til þrisvar sinnum hærri en meðallaun. Er tryggt að þessi kjör laði að hæfasta fólkið, metnaðarfyllsta og best til þess fallið að stýra þjóðarskútunni? Mitt mat er að hætta sé á því þetta starf verði, ef ekki verður brugðist við, eingöngu fyrir þá sem eru sterkefnaðir þegar, eldheita hugsjónamenn (Forseti hringir.) eða þá sem ekki hafa val um annað og betra starf. Því segi ég að til að starfið sé raunverulegur valkostur (Forseti hringir.) þarf að hugsa starfsumhverfi og kjör alþingismanna upp á nýtt.

Ég óska eftir málefnalegum umræðum um þetta mál.