144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

gjaldeyrishöft.

[14:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér dálítið á óvart að heyra hæstv. ráðherra segja að stjórnarandstaðan hafi verið í myrkri á síðasta kjörtímabili, þann 12. mars 2012 þegar ákveðið var að fella þrotabúin undir höft. Það eru svo sem engin geimvísindi, að sjálfsögðu átti allt að vera innan hafta sem hafði áhrif á útflæði fjármagns hér og afnám þeirra. Þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn hafa ekki sýnt það í verki hingað til að þeir taki þetta mál sérstaklega föstum tökum og þetta er hluti af sögu þeirra, þ.e. menn hafa ekki treyst sér til þess að fella þrotabúin undir höft. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði beinlínis gegn því og Framsókn sat hjá og menn geta því ekki afgreitt það svona billega.

Stærsta atriðið sem mér finnst órætt hér er að gríðarlegir fjármunir og eignir munu skipta um hendur í öllu þessu ferli, þar á meðal bankar, eignarhald á bönkum og mér finnst við þurfa að fara að ræða með hvaða hætti það verður gert. Þess vegna skiptir það máli sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í ræðu sinni áðan, að ferlið sé eins gagnsætt og mögulegt er vegna þess að við Íslendingar höfum bitra reynslu af því þegar stjórnmálaflokkar koma að því að einkavæða banka, selja eignir eða hafa eitthvað með slíkt að gera þegar svona stórar eignir skiptar um hendur. Við höfum heilt bankahrun til að sýna afleiðingar þess. Þess vegna skiptir máli að við séum með allt uppi á borðinu í þessum efnum og við verðum að fara að ræða það með hvaða hætti við sjáum það gerast.

Að lokum vil ég nefna það að við þurfum líka að ræða hvað gerist svo, og ég sakna þeirrar umræðu af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Það á að afnema höft en hvaða peningastefnu ætla menn svo að reka? Það eina sem sýnt hefur verið í þeim efnum er að menn ætla að loka á evruleiðina. Ekkert annað hefur okkur verið sýnt en maður getur ekki afnumið höft nema vita hvað maður (Forseti hringir.) ætlar að gera næst.