144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[19:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara fara fáeinum orðum um þetta frumvarp og þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með tillögu að framtíðarfyrirkomulagi ákæruvaldsmálanna. Við höfum búið við tímabundið ástand frá 2008 vegna frestunar á gildistöku héraðssaksóknarafyrirkomulagsins og enn frekar við tímabundið ástand eftir að rannsókn efnahagsbrota var færð til sérstaks saksóknara sem allir vissu að var tímabundið embætti. Þess vegna er afskaplega ánægjulegt að hafa fengið tillögu að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála.

Við fyrstu sýn finnst mér á margan hátt skynsamlega að farið við að draga úr kostnaði og í sjálfu sér hef ég á því skilning að menn hverfi frá þriggja þrepa ákæruvaldshugmyndinni í ljósi efnahagslegra aðstæðna. Nóg er nú samt því að þessi hóflega breyting mun, samkvæmt athugasemdum fjárlagaskrifstofu, kalla á hálfan milljarð í auknum útgjöldum til framtíðar umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun.

Út frá umræðu sem hefur verið um framtíð sérstaks saksóknara og frágang rannsókna sem í gangi eru hjá því embætti þykir mér líka mikils virði að heyra orð hæstv. ráðherra um að það skipti máli að gæta vel að þeim, tryggja samfellu í þeim rannsóknum og að þær truflist ekki í aðdraganda ákæru sem við vonum auðvitað öll að verði sem fyrst í þeim málum sem eftir standa.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi. Mér finnst afmörkunin skynsamleg á efnisþáttum sem eru felldir undir þetta nýja embætti og þykir við fyrstu sýn flest mæla með því að fara þessa leið en fagna því sérstaklega að það skuli strax vera komið fram með framtíðarfyrirkomulag. Það er fyrir löngu orðið tímabært og mjög gott að fá mjög skýra tillögu frá hæstv. ráðherra sem hægt er að fara yfir í nefnd.