152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er þörf, ekki síst í ljósi alvarlegrar stöðu í Úkraínu og áhrifa stríðsins á fæðuöryggi um heim allan, ofan á það sem var orðinn fyrirsjáanlegur vandi. Fæðuöryggi er ævarandi verkefni og það er viðfang stjórnmálanna. Þurrkar og aðrar náttúruvár eiga sinn þátt og kunna að hleypa af stað hungursneyðum. Þá er það hlutverk okkar að deila gæðunum jafnt á meðal almennings. Þá er ótalinn sá þáttur hungursneyðar sem er af mannavöldum, ekki aðeins vegna loftslagsbreytinga heldur ekki síður vegna stríða og styrjalda, vegna ósjálfbærra búskaparhátta og stefnuleysis stjórnvalda víða um heim þegar við tölum um matvælaöryggi. Dæmin sýna tengsl fæðuöryggis og átaka, ekki síst innan lands. Nærtækasta dæmið eru þau átök sem við kennum við arabíska vorið þar sem hækkandi verð á korni til brauðgerðar var meðal annarra þátta hreyfiafl í þeim átökum.

Hér er ég svo sem ekki að bera saman innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og mótmæli þau og átök sem áttu sér stað þegar arabíska vorið var, heldur að benda á keðjuverkandi áhrif innrásarinnar um heim allan. Það er þekkt stærð í stríðsrekstri að ýta undir hungursneyð og mynda þannig þrýsting á önnur ríki heimsins að halda að sér höndum og blanda sér ekki í átökin.

Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í ræðu sinni hér áðan eru Úkraína og Rússland leiðandi framleiðendur á korni í heiminum auk annarrar framleiðslu. Áhrifa átakanna mun ótvírætt gæta hér á landi. Við treystum á innflutning í matvælaframleiðslu okkar. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld stígi inn í núverandi ástand og komi áfram til móts við hækkandi verð á áburði og öðrum aðföngum sem við þurfum til matvælaframleiðslu. Enn mikilvægara til framtíðar er að auka hlut innlendrar framleiðslu á þeim aðföngum sem þarf til matvælaframleiðslu. Það er hluti af því að vera sjálfbær um fæðu að minnka eins og við best getum áhrif utanaðkomandi þátta á matvælaframleiðslu og fæðuöryggi Íslendinga.