152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

endurheimt votlendis.

360. mál
[20:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir svörin og þingmönnum sem tekið hafa til máls. Ég heyri að það hefur mikið gerst í þróun verklags við endurheimt á síðustu mánuðum og gátlistar, sem ráðherra benti á, og eftirávöktun eru nú í skýrara ferli en fyrir nokkrum árum síðan. Eins virðist liggja fyrir hvert sé hlutverk sveitarfélaga þegar til þeirra er leitað með umsagnir eða framkvæmdaleyfi. Ég heyri þó að sveitarfélög hafa nokkrar áhyggjur af því að þetta sé ekki nægilega skýrt þannig að það gæti verið ástæða til að skoða það nánar.

Annað sem ég vildi koma inn á er að rannsóknarskýrsla, sem kom út hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í síðustu viku um langtímatap kolefnis í framræstu ræktarlandi, dregur fram alveg nýjar upplýsingar um mat á kolefnislosuninni og samanburði á framræstu og óframræstu landi. Það má kannski fyrst og fremst draga þá ályktun af skýrslunni að við eigum mjög margt ólært um kolefnisbúskap landsins og við höfum væntanlega, miðað við þá niðurstöðu, ofáætlað losun frá framræstu votlendi og vanáætlað í rauninni það sem binst í framræslu votlendis sem er ræktað. En þetta þarf allt að skoða betur.

Þegar votlendi var ræst fram á sínum tíma voru gerð margvísleg mistök og ég held að það sé mjög mikilvægt að ekki verði gerð mistök í endurheimtinni, að það verði ekki send tæki út í allar mýrar — ég er ekki að segja að verið sé að gera það — heldur verði byggt á þekkingu og vísindum. Byggjum á áliti fagfólks, staðþekkingu og áætlunum um landnýtingu.