133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:20]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp hér. Vonandi verður þessi umræða til að opna augu ráðamanna og þjóðarinnar allrar fyrir því hversu brýnt er að grípa til varnaraðgerða gegn misnotkun á netspilavítum og á spilafíkn almennt. Það er oft gallinn við stjórnmálamenn að þeir vilja ekki bregðast við aðsteðjandi vanda, vilja ekki bregðast við allt að því fyrirsjáanlegum vanda og jafnvel ekki fyrr en í óefni er komið.

Frú forseti. Spilafíkn á netinu er orðin að vandamáli hér á landi og okkur berast fregnir af fólki sem er orðið skuldum vafið vegna spilavíta sem eru á veraldarvefnum. Vandamálið er til og það er á okkar ábyrgð að taka á því. Fyrir þá sem telja að hér sé um forsjárhyggju að ræða er tvennt sem mig langar að nefna. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi eru tæp 4% barna á aldrinum 11–19 ára haldin spilafíkn sem tengist netinu. Ætla má að svipað eigi við um Ísland, ef ekki nú þegar þá væntanlega í framtíðinni. Spilafíkn barna og unglinga getur leitt af sér þunglyndi, einangrun og jafnvel sjálfsvíg.

Hitt er líka staðreynd að þeir sem starfrækja spilavítin á netinu leita allra leiða til að ýta undir fíknina og þá jafnvel með aðstoð sálfræðinga. Við öllu þessu þurfum við að bregðast og vernda okkar borgara og fara þarf fram rannsókn á því hvort íslenskir aðilar komi beint að rekstri netspilavíta, t.d. þess sem nefnt hefur verið hér, Betsson.com. Menn hafa nefnt að íslenskir hluthafar eigi þar í fyrirtækinu.