145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[21:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir andsvarið. Við lögðum áherslu á að hafa 18. gr. eins einfalda og hægt væri. Það er mjög mikilvægt að þessar íbúðir séu eins hagkvæmar og hægt er til að við getum náð þeim markmiðum okkar að halda leigunni lágri þannig að fólk hafi efni á því að búa í sínu eigin húsnæði. Hann er líka lykilþáttur í Mannréttindasáttmálanum, sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi réttindi fatlaðs fólks, þessi réttur til sjálfstæðs lífs. Við þurfum að fjölga verulega búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og þetta er leiðin til að gera það mun hraðar en áður var ætlunin.

Á fundi sem ég, hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra héldum, undir fyrirsögninni „Vandað – hagkvæmt – hratt“, þá heyrði ég á þeim fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sem þar voru að umræðan kom þeim á óvart því að þeir áttu von á því að hún mundi snúast um aðgengi. En umræðan sneri miklu frekar að öllum öðrum þáttum, um það hvernig við getum náð niður verði við húsnæðið. Rætt var um alls konar kröfur og væntingar til húsnæðis, að það þurfi til dæmis að vera mjög stórt — það er ekki endilega lykilatriði að húsnæði sé stórt til að tryggja aðgengi og það höfum við séð í hönnun á húsnæði sem Danir hafa verið að vinna að. Þegar farið er í uppbyggingu á félagslegu kerfi — þetta gildir óháð því hvort við erum að tala um félagslega kerfið, eignaríbúðir, búseturéttaríbúðir eða búsetuíbúðir — skiptir kostnaðurinn svo ofboðslega miklu máli ef kerfið á raunverulega að geta staðið undir sér. Ef fólk á raunverulega að geta borgað af húsnæðinu sínu, borgað leigu eða borgað af lánum þá skiptir upphafskostnaðurinn, ekki síst með þann háa fjármagnskostnað sem við erum með hér á Íslandi, gífurlega miklu máli.