146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

orð heilbrigðisráðherra um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[15:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er ekki kominn hingað upp til að verja heilbrigðisráðherra og skort hans á svörum. Ég get bara svarað fyrir hann: Það gilda bara ákveðin lög í þessu landi. Þetta er ekki spurning um skoðun eða stefnu heilbrigðisráðherra. Það getur hver sem er opnað klíník, sérfræðiþjónustu, sem uppfyllir skilyrði laganna. (Gripið fram í: Þú ert ósammála landlækni?) Ég er bara að segja að lögin tala sínu máli. Auðvitað getur verið spurning hvort þetta sé sjúkrahús. Það getur verið lögfræðilegur ágreiningur um hvort þetta er sjúkrahúsþjónusta eða sérfræðilæknisþjónusta. Ef þeir uppfylla skilyrði um að reka sjúkrahúsþjónustu ber ráðherra að gefa leyfi til þess. Það er lögfræðileg niðurstaða ráðuneytisins, að þetta sé bara sértæk læknisþjónusta. Þá getur auðvitað hver sem er rekið það. Það er ekki spurning um skoðun eða pólitík ráðherrans. Ef menn eru ósáttir við það (Gripið fram í.) reyna þeir bara að breyta lögunum. Hér er staðurinn til þess. (Gripið fram í: Hver er skoðun ráðherrans?) Það skiptir engu máli. Lögin eru í gildi. Ráðherrann er embættismaður og fer eftir lögunum.