148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

úttekt á barnaverndarmál.

[15:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og er ánægjulegt að heyra að hún stendur með mér í því að allt komist upp á borðið í þessu máli.

Það er alveg rétt að það eru aðeins nefndarmenn í velferðarnefnd sem hafa aðgang að gögnum þessa máls. Þó hefur komið fram í máli nefndarmanna að til séu upplýsingar sem eiga vel erindi við almenning í ljósi þess að umrædd athugun snýr að einstaklingi sem hefur verið tilnefndur fyrir hönd Íslands til þess að gegna mjög virðingarverðu hlutverki í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Í þessu ljósi vil ég líka spyrja: Felur þessi óháða úttekt í sér staðfestingu hæstv. forsætisráðherra á því að ekki sé hægt að ætla að upprunaleg rannsókn velferðarráðuneytisins hafi einmitt verið óháð? Er það svo?

Mun hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að trúnaði verði aflétt nú þegar af þeim gögnum málsins sem ekki innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar eða með þeim afmáðum?

Stendur hæstv. forsætisráðherra enn að baki (Forseti hringir.) því að Bragi Guðbrandsson verði fulltrúi Íslands í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í ljósi þeirra upplýsinga sem nú þegar liggja fyrir?