145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. fjármálaráðherra með hamingju með þessa vinnu og það að við séum nú að fara að samþykkja lög um opinber fjármál. Vinna við lagagerðina hófst á síðasta kjörtímabili og við í Framsóknarflokknum studdum hana heils hugar. Ég skal viðurkenna að ég var hissa á því að breytingarnar færu ekki í gegn þá. Um leið og ég fagna þessu, vegna þess að ég tel að þetta muni stuðla að bættum vinnubrögðum, auknum aga og festu við fjárlagagerðina, vil ég benda á að í tíð síðustu ríkisstjórnar voru hinir svokölluðu safnliðir færðir frá fjárlagavaldinu yfir til ráðuneytanna og það voru mistök. Það voru stór og mikil mistök. Fjárlaganefnd hefur núna tekið einhver þeirra til baka sem er gott en að því sögðu vil ég segja að ef síðar kemur í ljós að við þurfum að breyta og bæta þessi lög (Forseti hringir.) mun ég standa að því. Alveg eins og mistök voru gerð á síðasta kjörtímabili megum við ekki færa of mikið vald til ráðuneytanna. Fjárveitingavaldið á að vera hjá Alþingi en ég fagna því að við séum að samþykkja frumvarpið hér í dag.