148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[17:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Það er þrennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í. Hv. þingmaður segir í ræðustól að ítrekað hafi verið beitt þeirri aðferð að draga fé af fjölmiðlum eða fjölmiðlamönnum með tilhæfulausum kærum, ef ég skil þingmanninn rétt. Ég held að sé mjög mikilvægt að þingmaðurinn fylgi því aðeins eftir og segi okkur hvað hún á við, vegna þess að það er vitanlega býsna bratt að segja að einstaklingar úti í bæ stundi það að vera með tilhæfulausar kærur með það eitt að markmiði að hafa fé af fólki eða fjölmiðlum. Það eru býsna stór orð. Ég er ekki endilega sammála þingmanni, ég tek það algjörlega skýrt fram. En það er hins vegar mjög mikilvægt að ef svo er, ef þingmaðurinn getur bent á dæmi að það sé þá gert hér. Mér finnst ómögulegt að láta það liggja í loftinu að fólk stundi þetta bara almennt.

Ég er sammála hv. þingmanni um lögbannið á Stundina. Það er mjög sérstakt að það hafi verið veitt og skuli enn vera í gangi.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvort hún hafi engar áhyggjur af því að þetta mál, verði því vísað til ríkisstjórnar og þeirrar nefndar sem hér um ræðir, gufi upp. Eins og fram kemur í nefndarálitinu hefur nefndin ekki neitt erindisbréf, ekki er skýrt í erindisbréfinu hvort þetta mál falli undir hlutverk þessarar nefndar. Hefur þingmaðurinn eða nefndin fengið vissu fyrir því að málið verði tekið upp af nefndinni? Mér finnst mjög mikilvægt að það liggi fyrir, að vissa sé fyrir því að nefndin taki það upp, að það deyi ekki bara vegna þess að umboð nefndarinnar er óljóst.