149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161 frá 2002, á þskj. 857.

Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og KPMG.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki um atriði er varða stjórn fjármálafyrirtækja og endurskoðun. Breytingarnar má rekja til CRD IV-tilskipunarinnar, sem tekin hefur verið upp í íslenskan rétt í áföngum á undanförnum árum. Lúta þær einkum að takmörkunum á öðrum störfum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja annars vegar og upplýsinga- og tilkynningarskyldu endurskoðenda fjármálafyrirtækja hins vegar.

Í kjölfar ábendingar í umsögn Fjármálaeftirlitsins og að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingar á orðalagi 2. efnismálsgreinar 4. gr. frumvarpsins, um skyldu endurskoðenda til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um ákveðin atriði sem varða starfsemi fjármálafyrirtækis. Breytingarnar lúta einkum að hugtakanotkun eins og kemur fram í breytingartillögum sem fylgja nefndarálitinu á sama þingskjali.

Auk framangreinds leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist grein þar sem kveðið er á um breytingu á 2. mgr. 90. gr. laganna, sem lýtur að starfstíma endurskoðenda. Samkvæmt ákvæðinu skal kjörtímabil endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækja vera fimm ár og hefur ákvæðið m.a. verið gagnrýnt fyrir ósveigjanleika, ekki síst þegar til stendur að samræma starfstíma endurskoðanda milli móður-, dóttur- og systurfélaga, sbr. 3. mgr. 90. gr. Samkvæmt frumvarpi til nýrra heildarlaga um endurskoðendur og endurskoðun, sem nefndin hefur til umfjöllunar, fellur umrætt ákvæði 2. mgr. 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki úr gildi og nýjar reglur um starfstíma endurskoðanda, sem byggist á ákvæðum reglugerðar ESB nr. 537/2014 um endurskoðendur á einingum tengdum almannahagsmunum, taka þá við. Samkvæmt þeim reglum má ákvarða starfstíma endurskoðanda fyrir fjármálafyrirtæki allt frá einu ári upp í 10 ár. Meiri hlutinn hefur því skilning á þeirri gagnrýni sem gildandi ákvæði 2. mgr. 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki hefur sætt og leggur til orðalagsbreytingu á ákvæðinu með það að markmiði að auka sveigjanleika við ákvörðun starfstíma við skipun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis.

Þá leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á b-lið 6. gr. frumvarpsins, sem er tæknilegs eðlis.

Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem koma fram á þingskjali sem fylgir nefndarálitinu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásgerður K. Gylfadóttir og Smári McCarthy.