140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

lög um ólögmæti gengistryggðra lána.

[13:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Á þinginu hefur verið lagt fram mál frá ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ég tók þátt í umræðu um það mál hér í síðustu viku. Það mál gengur núna til nefndar og er eðlilegt að nefndin meti það og hvort hún telji að málin séu svona einföld. Ef þau eru sannarlega jafneinföld og hv. þingmaður lætur að liggja, að vandamálið sé bara lög sem sett voru í fyrra og það sé enginn vafi á því hvernig eigi að öðrum kosti að reikna þessar afborganir, er málið auðvitað einfalt. Þá held ég að það skipti líka máli að hv. þingmaður sé algjörlega skýr á því að hann sé þá tilbúinn að ganga fram fyrir skjöldu og axla ábyrgðina á því ef með þeim hætti er verið að rýra eignarrétt kröfuhafa. Það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki tilbúnir að gera fyrir ári. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ekki tilbúnir að standa að þessu máli, ekki vegna þess að þeim þætti við ganga of skammt. Ó, nei, þeir töldu að við gengjum of langt. (BjarnB: Nei, nei, nei, við töldum …)