140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[14:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé ekki búin að kynna mér málin vel þegar ég tala úr ræðustól Alþingis. Ég sit líka í þessari nýju stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að það sé alveg á hreinu.

Það breytir því ekki að með breyttum þingsköpum var opnað á þá heimild að senda skýrslu til nefnda eins og nú hefur verið gert með þessu máli. Það kom fram í máli forseta Alþingis að þegar hún tók við þessari skýrslu taldi forseti heppilegt að tillögurnar kæmu fram sem skýrsla þar sem með því fælist ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta af hálfu þeirra sem flyttu málið.

Þarna tekur Alþingi sjálft ekki afstöðu til þessa næstum þúsund milljóna króna verkefnis sem var sett hér af stað með stjórnlagaþingi sem Hæstiréttur dæmdi síðar ógilt. Hér er verið að upplýsa að þessi vinna sé unnin fyrir gýg vegna þess að Alþingi sem slíku er óheimilt að taka við þessari skýrslu, sem er kölluð skýrsla nú, í frumvarpsformi. Allir vissu strax í upphafi að ekki væri hægt að búa til frumvarp úr því sem stjórnlagaráð síðan komst að. Þarna opinberast þetta svo bersýnilega, frú forseti.

Hins vegar langar mig aftur til að koma að því að þó að þessi nefnd sé nýstofnuð og þessari skýrslu verði vísað til hennar falla öll þau störf niður næsta vor eins og með önnur þingmál. Svo kemur fram hér að það er vonast til þess að einhverjir þingmenn flytji málið í frumvarpsformi þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lokið störfum. Mig langar til að spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur: Hvenær gerist það að þetta verði tilbúið (Forseti hringir.) í frumvarpsformi? Sér hún það fyrir sér á næsta þingi (Forseti hringir.) eða af hverju er verið að setja þetta mál í slíka óvissu ef það eiga ekki að vera kosningar fyrr en vorið 2013?