135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er tekið upp á Alþingi. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn hafa viðhaft í fangabúðunum í Guantanamo eru eins og hér hefur komið fram í máli hygg ég allra þingmanna algerlega óréttlætanlegar. En ég vil sérstaklega vekja athygli á því að nú er viðurkennt af hálfu forsvarsmanna leyniþjónustunnar CIA að þeir hafi raunverulega beitt pyndingum. Því hefur verið mótmælt til þessa af bandarískum stjórnvöldum og það eru ekki nema tvær eða þrjár vikur liðnar síðan dómsmálaráðherra Bandaríkjanna skrifaði í bréfi til bandaríska þingsins að vatnspyndingum hefði ekki verið beitt, að þær væru ekki heimilar. Það hlýtur að vekja upp spurninguna um það hvort yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda séu yfirleitt trúverðugar, hvort það sé yfirleitt hægt að reiða sig á þau svör sem stjórnvöld gefa meðal annars fyrir bandaríska þinginu. Á það vil ég leggja áherslu í þessu sambandi að jafnvel þótt því sé haldið fram núna að þessar aðferðir hafi ekki verið notaðar undanfarin fimm ár og aðeins á þremur föngum þá hef ég fulla ástæðu til að tortryggja þær yfirlýsingar þegar það liggur fyrir að dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sagði þinginu ósatt fyrir örfáum vikum síðan um þetta sama mál.

Bandaríkin eru því miður ótrúverðug sem brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda sem þau þó telja sig vera og hafa um langt skeið verið fyrirmynd margra, ekki bara um hinn vestræna heim heldur annars staðar, í þessu efni. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu, virðulegi forseti, að utanríkismálanefnd Alþingis ljúki umfjöllun um þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um — og í umræðum kom fram að stuðningur er við hana frá öllum þingflokkum — að hún afgreiði hana. En ég hlýt líka að velta því upp hvort hæstv. utanríkisráðherra eigi ekki að mótmæla þessu framferði og lýsa vanþóknun á framferði Bandaríkjanna (Forseti hringir.) og kalla sendiherra Bandaríkjanna hér á landi á sinn fund í því efni.