150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

málefni ferðaþjónustunnar.

[10:52]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Raunveruleikinn er sá að ferðaþjónustan er ekki lengur einhver krúttatvinnugrein heldur er þetta grein sem stóð undir 11% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Sama ár störfuðu tæplega 29.000 manns við greinina. Vegna samdráttarins eru ferðaþjónustufyrirtæki í auknum mæli að loka yfir vetrartímann og fækkun fyrirtækja er að verða greinileg vegna gjaldþrota og sameininga. Þrátt fyrir fögur orð um að stuðla að aukinni vetrarferðamennsku hefur ríkið ekki staðið við sitt en vetrarþjónusta við fjölmarga vinsæla ferðamannastaði hefur verið takmörkuð og aðgengi að heilu landshlutunum jafnvel takmarkað líka.

Það var áhugavert að lesa í morgun viðtal við hæstv. menntamálaráðherra um þá skoðun hennar að ríkisstjórnin verði að grípa til aðgerða til að sporna við frekari slaka í hagkerfinu. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra hvort hún sé sammála hæstv. menntamálaráðherra. Væri ekki mikilvægt nú að fara í raunverulega aukinn stuðning við ferðaþjónustuna til uppbyggingar og viðhalds og þjónustu innviða sem gagnast öllum íbúum landsins, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins?