140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

fundur með sveitarstjórnarmönnum í Norðurlandi vestra.

[10:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 21. nóvember sl. sendi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bréf til hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd samtakanna þar sem farið var yfir alvarlega stöðu á Norðurlandi vestra, ekki síst í ljósi slæmrar íbúaþróunar. Var þess farið á leit að settur yrði á laggirnar starfshópur til að greina stöðu svæðisins og orsakir þess mikla fólksflótta sem hefði orðið undanfarin missiri, aðstæður í atvinnulífinu og lífskjör íbúanna og leggja jafnframt fram tillögur til úrbóta.

Þess var enn fremur óskað að stjórnin gæti átt fund með hæstv. forsætisráðherra. Á Norðurlandi vestra fækkaði í fyrra um 200 manns og það eru 75% þeirrar fólksfækkunar sem varð á landsbyggðinni. Hér er um mikið alvörumál að ræða sem íbúar á Norðurlandi vestra leggja gríðarlega mikla áherslu á. Því hefði mátt vænta þess að hæstv. forsætisráðherra brygðist hratt og vel við, efndi til funda og leitaðist við að svara bréfi sem berst frá heildarsamtökum sveitarfélaga heils landshluta þar sem svo brýn mál eru borin upp. En því var ekki að heilsa.

Nú eru liðnir meira en þrír mánuðir og enn bólar ekki á svari frá hæstv. ráðherra. Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra eru með öðrum orðum ekki einu sinni virtir svars. Þarna sýnir hæstv. forsætisráðherra mikið virðingarleysi. Þetta er gersamlega ólíðandi og vinnubrögð sem hæstv. ráðherra getur ekki verið þekktur fyrir. Ég kalla það ekki svar, og sveitarstjórnarmennirnir deila þeirri skoðun með mér, að hæstv. ráðherra lét hringja norður í land á föstudagskvöldið og bjóða upp á fund með starfsfólki ráðuneytisins. Það er gott og blessað en út á það gekk ekki erindi sveitarstjórnarmannanna. Það er makalaust að úr ráðuneytinu berist ekki formlegt svar við svo sjálfsögðu erindi.

Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög önnum kafinn og mæðist í mörgu en er það virkilega svo að ekki hafi fundist tími, svo sem eins og einn klukkutími, í dagskrá ráðherrans á þriggja mánaða tímabili til að funda með fulltrúum heils landshluta þegar svo brýn erindi eru borin upp? Er dagskráin svo þéttskipuð og önnur mál svo mikið brýnni að ekki megi sjá af stuttri stund til að ræða þessi stórmál sem snerta heilan landshluta og borin (Forseti hringir.) eru upp með kurteisi og velvilja?

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort sveitarstjórnarmennirnir verði ekki virtir svars og hvort ekki megi treysta því að slíkur fundur verði haldinn innan tíðar.