148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er tímabær. Hún dregur fram þá yfirburðastöðu sem þjóðfélag eins og Ísland er í. Á 100 árum hefur þjóðfélagið farið frá örbirgð til allsnægta og við erum núna kannski komin á þann stað að við getum farið að hugsa fyrir einhverju kerfi eins og borgaralaunum á meðan íbúar þróunarríkja berjast um á hæl og hnakka við að brauðfæða sig og hafa ekkert til þess nema handafl og hugvit. Þess vegna finnst mér þessi umræða okkar núna lykta svolítið af því að við erum allsnægtafólkið, við getum leyft okkur að hugsa svona, við höfum tíma til þess og tækifæri til að huga að hlutum sem þessum meðan meðbræður okkar annars staðar á hnettinum eru enn uppteknir af því kannski 80% af tímanum rétt að hafa til hnífs og skeiðar, líkt og við vorum fyrir 80–100 árum.

Auðvitað er góðra gjalda vert að hugsa fyrir þessum hlutum og ræða þá. Ég minni þó á, það kom reyndar fram hjá ágætum ræðumanni rétt á undan mér, að tilraun Finna sem átti upphaflega að vera til tveggja ára virðist hafa verið hætt nú í apríl, ef marka má nýlegar fréttir. Hún hófst meðan atvinnuástand var mjög bágt í Finnlandi, en eftir því sem ég hef orðið áskynja í blaðagreinum hafa finnsk yfirvöld hætt þessari tilraun og gert atvinnulausum það að verða sér úti um vinnu innan þriggja mánaða ellegar missa bætur. Þetta mál á greinilega dálítið í land en auðvitað eigum við að ræða það opinskátt.