144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

436. mál
[22:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál sé komið fram. Það er mjög mikilvægt og var orðið brýnt fyrir svolitlu síðan að taka á þeim vanda sem í daglegu tali er kallaður hefndarklám. Ég vil sérstaklega hrósa flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að fara rétt með tjáningarfrelsið vegna þess að það er oft hér í þessum sal sem menn flytja eitthvert frumvarp; það á að auka á refsingar við einhverju tjáningarbrotinu, einu eða öðru, eða breyta því á einhvern hátt og sagt: Hér er alls ekki verið að skerða tjáningarfrelsið, það er hins vegar nauðsynlegt að skerða tjáningarfrelsið af hinni eða þessari ástæðunni. Svo hafna menn því að verið sé að skerða tjáningarfrelsið vegna þess að þeir finna í því réttlætingu.

Hér er mun betur að verki staðið og mun þroskaðri umræða gagnvart tjáningarfrelsinu því það eru lögmætar ástæður fyrir því að takmarka tjáningarfrelsið og þá eiga menn að horfast í augu við það, eins og er gert í þessu frumvarpi og það með réttu. Hér er lagt til að tjáningarfrelsinu séu settar skorður í þágu friðhelgi einkalífsins sem er vitaskuld fullkomlega réttmætt.

Það er ýmislegt sem ég væri til í að ræða við betra tækifæri um útfærsluna á þessu annars ágæta frumvarpi. Ég býst fastlega við því að mjög gagnlegar og upplýsandi umræður verði í nefndarstörfum um frumvarpið en að öðru leyti vil ég þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja það fram og ég hlakka til að sjá það verða einn daginn að lögum.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.