151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eitt af stærstu verkefnunum fram undan er að takast á við það mikla atvinnuleysi sem við búum við og hefur orsakast fyrst og fremst vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar Covid-faraldursins. Eins og við þekkjum hafa stjórnvöld spilað út fjölda vinnumarkaðsaðgerða í formi stuðnings við fólk og fyrirtæki og enn fleiri aðgerðir eru á leiðinni sem koma til móts við fólk í langtímaatvinnuleysi, stuðla að virkni og munu brúa það bil sem þarf þar til ferðaþjónustan tekur aftur við sér.

Sem betur fer er víða um land þörf á fólki til fjölbreyttra starfa. Auglýst hefur verið eftir starfsfólki víða um land og húsnæði er oftar en ekki í boði. Áhugi hefur aukist hjá ungu fólki á að setjast að úti á landi og nýta sér þau tækifæri og lífsgæði sem fylgja því að búa með fjölskyldunni í streitulausara umhverfi þar sem stutt er í alla þjónustu og gott er að ala upp börn í meira frelsi og nálægð við náttúruna og fjölda afþreyingarmöguleika. Það kemur mörgum skemmtilega á óvart hvað landsbyggðin hefur upp á að bjóða og hve miklir möguleikar eru til sjálfstæðrar atvinnusköpunar eða að taka með sér störf sem hægt er að vinna í fjarvinnslu hvar sem er á landinu. Störf án staðsetningar hafa aldrei verið raunhæfari kostur en í dag. Covid-ástandið hefur kennt okkur að fjarvinnsla ýmiss konar er komin til að vera, sem er frábært gagnvart möguleikum á því að búa hvar sem er á landinu. Víða um land er líka til staðar aðstaða til að koma upp fjarvinnslu af ýmsu tagi.

Ég skora því á öll fyrirtæki og stofnanir, bæði í opinbera geiranum og einkageiranum, að taka fagnandi þeim möguleikum sem felast í því að nýta aðstöðuna og þann mannauð sem til staðar er úti um land þegar auglýst eru störf sem geta verið unnin hvar sem er. Vilji er allt sem þarf, það hefur undanfarið ár sýnt okkur, og þessir möguleikar á atvinnusköpun eru hugsanlega mikil lyftistöng fyrir landsbyggðina.