151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:54]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, ég hef einnig lagt tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra og hefur hún svarað því fljótt og vel. Það er mikið um rangfærslur og misskilning á ferðinni í dag í sambandi við þessar skimanir og það veldur óvissu. En upplýsingar eyða óvissu og vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að koma eins miklum upplýsingum út í loftið og hægt er. Ég vil t.d. nefna að óvissa er fyrir konur búsettar á Vestfjörðum og fá boð í brjóstaskimun, þær geta ekki fengið upplýsingar hvort eða hvenær skimun fari fram á þeim stað, t.d. á Ísafirði, og þurfa því annaðhvort að bíða í óvissu eða taka sér ferð til Reykjavíkur til að fara í skimun. Þessu væri hægt að kippa í liðinn bara með því að hafa þessar upplýsingar fyrir hendi út árið því að búið er að skipuleggja ferðir um landið fram í maílok en alger óvissa ríkir t.d. um hvar skimanir verða í sumar um landið.