145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

atvinnuþróun meðal háskólamenntaðra.

[14:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að við séum saman komin á Alþingi aftur og ekki síst vegna þess að hér fáum við tækifæri til að ræða málin og ræða málin við hæstv. ráðherra. Ef það er eitthvert hlutverk sem við höfum sem þing og stjórnvald þá hlýtur það að vera að horfa til framtíðar og horfa á tækifæri unga fólksins. Nú síðustu vikur höfum við séð upplýsingar sem vekja manni ákveðinn ugg um töluverðan brottflutning frá landinu sem hefur verið meiri undanfarið, þrátt fyrir ákveðinn uppgang í atvinnulífinu, en við höfum þekkt áður að því er virðist, öðruvísi en á krepputímum. Á sama tíma heyrum við frá Samtökum atvinnulífsins að þörf sé á 2 þús. nýjum Íslendingum á ári næstu 20 árin til þess að standa undir velferðarkerfinu. Það hlýtur að skipta mjög miklu máli fyrir Ísland að vera samkeppnishæft um fólk, að hér sé gott, fjölbreytt og skemmtilegt samfélag sem ungt fólk getur hugsað sér að búa í, getur hugsað sér að flytja ekki frá og getur hugsað sér að flytja til. Það vekur manni ákveðnar áhyggjur af því að við séum ekki að standa okkur nógu vel í þessu. Við heyrum margar sögur af því að ungt fólk sjái ekki tækifærin, eigi erfitt með að fóta sig á húsnæðismarkaði og á atvinnumarkaði. Við sjáum aukið atvinnuleysi háskólamenntaðra, það eru eflaust ýmsar ástæður fyrir því en ein af ástæðunum hlýtur að vera að okkur gengur ekki nógu vel að búa til fjölbreytt störf og ýta undir nýsköpun.

Mig langar til þess að leggja þessar hugleiðingar fyrir hæstv. forsætisráðherra og spyrja hann að því hvort hann sé ekki sammála að þetta séu mál sem við þurfum að taka sérstaklega sterkt utan um, að við þurfum heildstæða stefnu gagnvart unga fólkinu en líka að taka á ákveðnum málum sérstaklega til þess að tryggja fjölbreytni og samkeppnishæfni landsins.