145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

vatnsveitur sveitarfélaga.

400. mál
[14:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Breytingarnar varða skilgreiningu og álagningu vatnsgjalds sem lagt er á allar fasteignir sem tengdar eru vatnsveitum sveitarfélaga. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi mælt fyrir nú fyrr í dag, en þær breytingar varða skilgreiningu og álagningu fráveitugjalds með sambærilegum hætti.

Frumvarp þetta var unnið í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur, auk þess sem sérfræðingur við lagadeild Háskóla Íslands kom að gerð þess þegar litið var til nánari lagagrundvallar frumvarpsins.

Tilefni frumvarpsins eru tveir dómar Hæstaréttar frá árinu 2013 þar sem fram kom þrengri túlkun á skyldu húseigenda til greiðslu vatnsgjalds en vatnsveiturnar höfðu fram að því byggt gjaldtöku sína á, annars vegar varðandi upphaf gjaldtökunnar og hins vegar varðandi túlkun á því orðalagi 1. mgr. 6. gr. laganna að heimilt væri að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið. Með þessu frumvarpi er ætlunin að skýra og treysta betur grundvöll álagningar vatnsgjalds sem þjónustugjalds fyrir þá almannaþjónustu sem vatnsveitur sveitarfélaga veita. Í ljósi þeirra krafna sem Hæstiréttur gerir til álagningar slíkra gjalda. Þessi þjónusta felst fyrst og fremst í þeim aðgangi að neysluvatni sem eigendur fasteigna á veitusvæðum eiga kost á með tengingu við veiturnar, óháð því hvernig einstakir fasteignaeigendur haga dreifingu vatnsins innan fasteignar sinnar hverju sinni. Það er einnig mikið öryggismál fyrir alla fasteignaeigendur að eiga tryggan og öruggan aðgang að slökkvivatni, óháð vatnsnýtingu þeirra að öðru leyti.

Í öðru lagi verður tekinn af vafi um það að vatnsgjald skuli taka mið af fasteignamati fasteignar í heild sinni eða stærð allra mannvirkja á fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli sé notkunin ekki mæld, eins og byggt hefur verið á til þessa. Það mun því almennt ekki hafa áhrif á fjárhæð vatnsgjaldsins hvernig eigandi fasteignar kýs að nýta þessa þjónustu innan sinnar fasteignar hverju sinni, enda er það alfarið á hans forræði. Tilteknar undantekningar verða hins vegar frá þessari meginreglu, svo sem varðandi afmarkaðan hluta fasteignar sem sýnt er fram á að geti ekki tengst vatnsveitu.

Hæstv. forseti. Við undirbúning frumvarpsins var kannaður sá möguleiki að komið yrði upp notkunarmælum hjá öllum greiðendum vatnsgjalds og álagning gjaldsins yrði þannig aðeins byggð á mældri notkun. Í ljós kom að kostnaðurinn er umtalsverður. Sá kostnaður sem mun fylgja uppsetningu notkunarmælanna er slíkur að ekki var talið réttlætanlegt að fara þá leið að þessu sinni.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til þóknanlegrar umræðu og 2. umr. Alþingis.