149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Aftur spyr ég þingmanninn hvort hann líti ekki svo á ef hann samþykkir breytingartillögurnar að hann sé að samþykkja tillögur meiri hluta nefndarinnar. Tillögur meiri hlutans eru um meginstofnæðarnar þrjár, Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, á það leggur meiri hlutinn leggur áherslu. Ef tillögurnar verða samþykktar eru það tillögurnar sem atkvæði hv. þingmanns og meiri hlutans í þinginu sendir til umhverfis- og samgönguráðherra, tillögur um að ákveðin byggðarlög í landinu, Reykjanes, Suðurland, sér í lagi Hveragerði og Selfoss, þaðan sem keyrt er inn í borgina, og Akranes, verði sérstaklega skattlögð fyrir þetta. Menn hafa talað um skatta og gjöld og við skulum ekki endilega festa okkur í því en þetta eru alla vega veggjöld, aukin gjöld sem þeir greiða sem keyra þennan veg og þá helst þeir sem keyra met. Það er innbyggt í tillögunum. Þeir sem keyra hvað mest greiða. Það er það sem ég á við.

Finnst þingmanninum hann ekki vera að samþykkja það sem meiri hlutinn leggur áherslu á varðandi hvernig gjaldtöku verði háttað? Þetta kemur svona frá meiri hlutanum og verður lagt fyrir þingið. Upplifir hv. þingmaður þetta ekki eins og ég? Ef ekki er það bara ágætt, en ég held að þetta sé þannig að það verði þá skilaboðin sem verða send til umhverfis- og samgönguráðherra. Þegar ráðherrann kemur með tillögu sína að frumvarpi um gjaldtöku mun hann taka mið af því, af því að Alþingi sagði honum að gera það. Þá er hann kominn í skjól og getur sagt: Þingið var búið að samþykkja þetta. Nú er þetta bara svona og þannig höfum við það. Þá verður miklu erfiðara hér í þinginu að snúa því til baka. Þetta er hættan sem ég sé. Sér þingmaðurinn hana ekki?