138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Eftir að hafa hlustað á umræður í dag má segja heilt yfir að sjálfstæðismenn séu á því að þeir vilji fara samningaleiðina í þessu máli en telja að freista eigi þess að ná betri samningi og hann verður að vera miklu betri til að hægt sé að fara í þá óvissuferð. Ef það gengur ekki muni menn fara dómstólaleiðina. En áttum okkur á því að dómstólaleiðin mun kannski taka 1–2 ár og þá erum við að skapa óvissuástand í langan tíma fyrir íslenskt atvinnulíf.

Á hinn bóginn segjum við stjórnarliðar að við teljum að skynsamlegast sé að semja nú. Við byggjum það mat t.d. á gestum sem hafa komið fyrir þingnefndir. Mig langar að vitna til eins þeirra, Friðriks Más Baldurssonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík, en hann segir í áliti sínu:

„Áhættu af því að ganga nú að greiðsluákvæðum Icesave verður að vega á móti áhættunni sem felst í að fresta málinu enn frekar. Fram undan eru miklar greiðslur ríkissjóðs og aðila með ríkisábyrgð, sérstaklega árin 2011 og 2012. Núverandi gjaldeyrisforði kann að duga til að standa skil á þessum greiðslum en það virðist þó vera háð verulegri óvissu. Komi ekki til annarrar fjármögnunar virðast því líkur á greiðslufalli ríkis, fyrirtækja með ríkisábyrgð eða sveitarfélaga eftir 2–3 ár. Í þessari stöðu felst mikil áhætta sem brýnt er að leysa úr með því að tryggja fjármögnun þessara greiðslna.“

Tryggvi Þór Herbertsson segir í grein í Morgunblaðinu í dag að höfnun Icesave fæli frá sér erlenda fjárfestingu og viðhaldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis. Það er því ljóst að til skemmri tíma getur það haft mjög vondar afleiðingar fyrir okkur að hafna Icesave og fresta málinu í 1–2 ár ef við veljum þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara.