144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

tollamál á sviði landbúnaðar.

[10:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langar aðeins að koma inn á tollkvótana sem ég hef áður rætt í þinginu. Mér finnst heldur lítið fjallað um þá í skýrslunni og það er vandasamt hvernig útdeila á þessum takmörkuðu gæðum, hvort það er með útboði, með því að varpa hlutkesti eða einhverri blandaðri leið. Mér fyndist að fjalla hefði mátt meira um það í skýrslunni. Mér finnst í rauninni mótsögn í því sem hér segir, með leyfi forseta:

„… t.d. er meginreglan tímaröð hjá Evrópusambandinu eða „fyrstur kemur, fyrstur fær“.“

Svo segir á næstu blaðsíðu:

„Að mati sérfræðinga OECD er uppboð á tollkvótum talin skilvirkasta leiðin til að útdeila þessum takmörkuðu gæðum.“

Þá gæti maður hugsað sem svo: Hér er verið að staðfesta það að sú leið sem farin er hér sé best. Þegar ég les síðan skýrsluna og það sem vitnað er í þá er ekki verið að tala um landbúnaðarvörur. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að landbúnaðarvörurnar eru teknar frá vegna þess að þær eru svo sérstakar. Ég geri athugasemdir við það og mundi vilja fá meiri umræðu um tollkvótann. Við hljótum öll að vera sammála um að þeir verði að þjóna tilgangi sínum sem er að lækka verð (Forseti hringir.) til neytenda og (Forseti hringir.) til að auka samkeppni.