153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

fjármögnun háskólastigsins.

[11:14]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Hér talar ráðherra um galopið háskólakerfi. Það er gott og blessað en staðreyndin er hins vegar sú að ungt fólk á Íslandi skilar sér ekki jafn vel í háskólana eins og á Norðurlöndunum. Útskrifaðir í ákveðnum aldursflokki ungs fólks eru í Noregi 51%, 49% í aldursflokknum 25–35 ára í Svíþjóð. Hér eru þessar tölur 38%. Staðreyndin er sú að það eru þröskuldar inn í háskólakerfið. Það getur enginn háskólanemi framfleytt sér á framfærslu Menntasjóðs einni og sér og nýútskrifað háskólafólk finnur fyrir kulnun og einkennum hennar örfáum árum eftir útskrift. Þetta er af því að fólk vinnur óboðlega mikið með háskólanámi sínu. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að beita sér í þessu máli? Jú, við sjáum fram á að það verði farið djúpt ofan í vasa þessara háskólanema til að plástra yfir áratugavanrækslu á þjóðarháskólanum okkar. (Forseti hringir.) Ef menntamál skipta hæstv. ráðherra og þessa ríkisstjórn einhverju máli þá verðum við að gefa í, öðruvísi en að seilast ofan í vasa háskólanema.