144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

aðgerðaáætlun í málefnum fátækra.

[15:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný hv. þingmanni. Ég get því miður ekki tekið undir að eitt ár hafi glatast vegna þess að þær tillögur eru komnar fram. Þær eru í samræmi við ýmislegt sem við vorum að gera nú við fjárlagagerðina fyrir árið 2015 þar sem við erum að reyna að tryggja að stuðningur hins opinbera fari til þeirra sem hafa minnst á milli handanna. Það er nefnt hér sérstaklega eins og varðandi lyfin að þar var bætt við, hvort það var við 2. eða 3. umr. fjárlaganna, um 150 milljónum í greiðsluþátttökukerfið. Það var líka í fyrsta skipti í langan tíma sem komu um 72 milljónir inn í það sem snýr að félagslegri aðstoð við fólk vegna lyfjakaupa hjá Tryggingastofnun. Við erum síðan að fara yfir þessar tillögur sem ég nefndi sem eru á borðinu. Ég hef lagt megináherslu á að horfa á húsnæðismálin því að ég held að hár húsnæðiskostnaður sé að sliga þennan hóp einna mest. Það liggur alveg fyrir og það er alveg tímasett hvenær þau frumvörp eiga að koma hér inn í þingið.