145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég skil ekki bráðlætið. Það er mörgum Íslendingum minnisstætt hvernig til tókst við fyrri einkavæðingu bankanna í boði þeirra flokka sem ætla að gera það núna aftur. Og ekki hef ég séð að við séum búin að laga grunninn til að hægt sé að gera þetta þannig að þetta ferli verði trúverðugt og geti ekki beinlínis orðið þjóðinni til skaða til langs tíma litið.

Alþingi lét gera samantekt um það hvað hafi verið gert til að framfylgja þeirri þingsályktun sem átti að vera lærdómur og leiðir til að endurreisa Ísland á traustari grunni en áður var. Í 11. lið þeirrar þingsályktunar, sem við samþykktum öll á síðasta kjörtímabili, kemur fram að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá. Það er ljóst að það hefur ekki verið gert. Tilburðir voru til þess þegar efnahags- og viðskiptaráðuneytið var stofnað en nú hefur Hagstofan, sem á að sjá um þetta, verið flutt undir forsætisráðuneytið.

Í ljósi þess sem maður hefur fylgst með undanfarna daga verð ég að segja eins og er að það á eftir að rannsaka betur hvað fór úrskeiðis. Við getum ekki farið í þetta ferli með þessa flokka sem nú eru við stjórnvölinn. Við getum ekki gert það. Ég mun gera allt sem ég get til að standa í vegi fyrir því að svo verði.