133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að þeir sem hingað eru komnir hefðu örugglega komið hvort eð er og það hefði verið betra að hafa þetta eins og ákveðið var frekar en að þetta flæði hefði komið inn til landsins í gegnum starfsmannaleigur. Ég er ekki alveg sammála því. Ég held að við hefðum frekar átt að halda okkur við þær takmarkanir sem voru í gildi fyrir 1. maí. Þannig hefðum við haft í höndunum einhver tæki til að skrá fólk inn í landið, ef svo má segja, til að fylgjast með því hverjir væru komnir hingað. Þá hefði verið hægt að fylgja þeim betur eftir. Ég held að það hefði verið vænlegra.

Það má vel vera að það sé alveg rétt að fjöldinn hefði verið jafnmikill sem hingað hefði komið. Það hefur náttúrlega verið eftirspurn eftir vinnuafli miðað við þær aðstæður sem hafa ríkt í þjóðfélaginu. Það má vel vera. En ég tel að við hefðum haft tæki til að fylgja þessu betur eftir, hafa uppi betra eftirlit ef við hefðum gert það. Jafnframt hefðum við átt að setja hert lög, eins og til að mynda þau lög sem við ræðum hér í dag, og jafnvel önnur lög, varðandi starfsmannaleigur og annað þar fram eftir götunum. Við hefðum átt að veita verkalýðsfélögunum heimildir til að fara inn í fyrirtækin og fá að sjá kjarasamninga, launaseðla og önnur gögn sem varða kjör þessa fólks, jafnvel að verkalýðsfélögin hefðu fengið heimildir til að fylgjast grannt með því hverjar væru búsetuaðstæður fólks af erlendum uppruna sem kemur hingað til að starfa.

Það var opnað fyrir gáttirnar án þess að lagastoðirnar væru fyrir hendi. Það vorum við að reyna að benda á í vor. Við bentum á að þjóðfélagið væri ekki tilbúið. Það er það sem við höfum verið að benda á, það er það sem hefur verið rauði þráðurinn í öllum málflutningi Frjálslynda flokksins. En málflutningur okkar hefur verið afbakaður allrosalega oft og tíðum og snúið út úr honum með alls kyns upphrópunum og hreinum ósannindum.

Hitt vil ég svo líka segja, sem ég gleymdi að minnast á í fyrra andsvari mínu: Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði, ef ég man rétt, að Vinstri grænir hefðu lagt fram mörg þingmál um réttindi erlendra starfsmanna á Íslandi. Samfylkingin hefur líka gert það. Mér er fullkunnugt um það. Þessir tveir flokkar eiga fullan heiður skilið fyrir það, ég ætla ekki að draga neitt úr því. En mér finnst að þeir hefðu átt að bregðast öðruvísi við í vor þegar við í Frjálslynda flokknum vorum að hrópa.