146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

265. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Jóna Sólveig Elínardóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn. Utanríkismálanefnd fjallaði um málið á fundi sínum og fékk á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er ætlað að taka þrjár tilskipanir upp í EES-samninginn sem fjalla um samræmingu aðildarríkja á reglum varðandi rafsegulsviðssamhæfi, búnað og verndarkerfi sem ætluð eru til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti og rafföng sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.

Markmið tilskipananna er að samræma skilyrði sem eiga við um þann búnað sem um ræðir hverju sinni. Þannig skal meðal annars beita skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmið við grunnkröfur og festa CE-merki á viðkomandi vörur og tæki. Tilskipanirnar hafa þegar verið innleiddar og vill utanríkismálanefnd því árétta mikilvægi þess að farið sé í öllu að reglum um þinglega meðferð EES-mála hvað það varðar. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt og er samhljómur um það í nefndinni.