151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég kann að meta viðleitni forseta sem áréttaði það við formenn nefnda og nefndarmenn hvernig trúnaði er háttað í nefndum með því bréfi sem hann sendi. Það var lagt fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Eins og fram hefur komið í umræðunni gerðist það í kjölfarið á þeirri áréttingu að þrátt fyrir hana hafa menn ekki þorað að bakka með það í fjölmiðlum að ég sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi brotið trúnað með því að fara á RÚV og segja þau orð að komið hefðu fram nýjar upplýsingar um samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjóra fyrir nefndinni og við þyrftum að athuga málið nánar, þ.e. símtalamálið milli dómsmálaráðherra og lögreglustjóra. Þetta er að sjálfsögðu ekki brot á trúnaði. Samt sem áður, og þetta þarf forseti að vita, kemur fram í bókun tveggja Sjálfstæðismanna í nefndinni, Brynjars Níelssonar og Óla Björns Kárasonar, að gestir sem komu fyrir nefndina hafi enga tryggingu lengur fyrir því ákvæði þingskapalaga að trúnaður haldi og vísa þar til framkomu formannsins, (Forseti hringir.) þess sem ég sagði áðan, orða minna á RÚV. (Forseti hringir.) Þarna er órökstudd fullyrðing (Forseti hringir.) um að ekki sé hægt að virða trúnað samkvæmt þingskapalögum bókuð á Alþingi. (Forseti hringir.) Það gengur ekki að hafa þetta svona. Við þurfum að leysa úr þessu og ég óska eftir liðsinni forseta í því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)